Stúdent Sigrún Vala Þorgrímsdóttir, málabraut.
Já, ég er orðin stúdent. Ég hef sett upp hvíta kollinn og nú verður ekki aftur snúið. Dagurinn í gær byrjaði vel, ég svaf til hálf ellefu, hjálpaði síðan aðeins til , gerði mig til og svo fórum við aðeins til pabba (þar sem veislan var haldin). Þaðan var ferðinni heitið í MH, þar sem útskriftarathöfnin fór fram. Ég var í upphlut, mér fannst ég nú bara frekar fín, sko :P Þegar æfingin var, á föstudaginn, hugsaði ég sem svo: það væri nú alveg týpískt að ég myndi setjast ofan á húfuna mína. Og getiði hvað gerist Jú, ég hlammaði mér ofan á húfuna mína þegar mín röð hafði tekið við skírteinunum! Nei, ókei, ég hlammaði mér ekki beint, en þetta var samt ekki sniðugt. Sem betur fer sat ég aftarlega, þannig að bara þeir sem sátu næst mér gátu séð þetta. Athöfnin var falleg, ég söng með kórnum, sem gerði þetta eiginlega bara enn eftirminnilegra. Það ver rigning, sem var svolítið slæmt, það sem ætlunin var að hafa hluta veislunnar utandyra. En það var bara skemmtilegt að heyra rigninguna skella á þakinu hjá henni ömmu og það skapaðist góð stemmning, þar sem flestallir söfnuðust saman þar. veislan var sko bæði þar og hjá pabba, sem býr eiginlega í sama húsi... nenni ekki að útskýra. Ég fékk heilmikið af góðum gjöfum, og eiginlega bara eitthvað sem ég get notað í framtíðinni. Skartgripi, rauðvínsglös, saumaskrín og matreiðslubók, svo dæmi séu nefnd. Að ógleymdri blessaðri saumavélinni! Það voru skemmtiatriði, ég söng og frænkur mínar komu hver af annarri með hljóðfærin sín og léku eins og englar. Síðan hélt föðurbróðir minn uppi smá stemmningu með júkúlele-leik. Það skapaðist skemmtileg stemmning líka úti, undis skyggininu sem er fyrir framan íbúðina hennar ömmu. Við höfðum líka hjálparkokka. Hildur Ploder og Katla sáu um drykkina, Hákon kom og lék með mér á píanóið og Finnur Kári, góðvinur Gústa ljómyndaði mig og gestina í bak og fyrir. Síðan var borðað hjá pabba og svo skellt sér í partý hjá giftu vinkonunni. Síðan endaði kvöldið á skemmtistaðarölti og loks smá hangs hjá vöffluvagninum. Vá, hvað það var gaman að vera á djamminu með húfuna góðu. Það óskuðu allir manni til hamingju, kinkuðu kolli til manns eða brostu. Og ekki spillti að hafa Gústann sinn með sér allan daginn. Ég held að dagurinn hefði ekki orðið eins góður, hefði ég ekki haft hann.
skrifað af Runa Vala
kl: 19:28
|